Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Meira af sjávarútvegi.

Meira af sjávarútvegi 

Ég hefi í tveimur greinum gagnrýnt stjórnsýsluna í landinu fyrir framgöngu sína í atvinnumálum þá sérstaklega málefnum sjávarútvegsins og þá umræðu sem um hann hefur spunnist í kjölfarið. En það er lítið mál að gagnrýna skoðanir annarra og hafa engar sjálfur. Allt of oft er almenningi boðið upp á slíkan málflutning, eintóma gagnrýni en enga sýn. Ætla ég mér ekki að bætast í þann hóp og set því hér fram nokkrar skoðanir mínar um stjórn fiskveiða og hvað betur megi fara þar.

 

Stjórn fiskveiða áfram byggð á grundvelli aflahlutdeilda
Óþarfi er að breyta kerfinu frá því sem er en þó á að sameina þau og eingöngu vera með eitt hlutdeildakerfi. Þetta kerfi hefur reynst okkur ágætlega ef litið er til þess að sjávarútvegurinn hefur þrátt fyrir gríðarlegan niðurskurð í nánast öllum tegundum skilað okkur þó því sem hann hefur gert. Ef menn vilja halda sig við það að kvótakerfið sé til verndar fiskistofnum er engin þörf á því að stýra sókninni í gegnum mörg kerfi. Fiskurinn er nákvæmlega jafn mikið dauður, hvort heldur sem hann er veiddur í aflamarki eða krókaaflamarki.

 

Allir eiga að geta keypt sér aflaheimildir
Ef einhver meining stendur á bak þá fullyrðingu flestra að auðlindir þær er felast í fiskistofnunum séu þjóðareign þá á að gera hverjum manni það kleift að eignast hlutdeild í henni. Hver maður sem á fé aflögu á að geta keypt sé kvóta og látið skrá hann á sína kennitölu hjá Fiskistofu. Einhverjir kunna að segja að allir geti keypt sér bát og kvóta og þar með orðið eigendur að auðlindinni. Það er rétt, en gefum okkur að einhver eigi 5 milljónir krónur aflögu og hugnast það ekki að geyma það á neikvæðum vöxtum í bankanum eða kaupa fyrir það verðbréf sem sagan hefur kennt okkur að það er nánast 100 % öruggt að þau verði orðin verðlaus innan fárra ára. Fyrir t.d. 5 milljónir krónur er hægt að kaupa um 2 tonna af þorski, því ætti hinn almenni borgari í ofanálag að þurfa kaupa sér bát fyrir a.m.k. aðrar 5 milljónir krónur til að vista þennan kvóta á og í þokkabót að eyða um 3-400 þúsund krónum í endurnýjun á haffærniskírteini bátsins ár hvert. Svo ekki sé talað um vesenið sem því myndi fylgja að þurfa hverju sinni veiða helming kvótans. Út frá eignarréttarlegum skilningi laga getur þjóðin sem slík ekki verið eigandi að auðlindum hafsins en hún getur þó stjórnað því með hvaða hætti sé gengið um þessar auðlindir og hvernig henni sé ráðstafað. Því á það að vera skýr krafa fólks að það geti keypt sér hlutdeild í kerfinu og vistað hana á eigin kennitölu. Eftir hrunið hafa menn farið mikinn um auðlindirnar og eignarhald þeirra, en ein er sú auðlind sem nánast engin þjóð er án og er það land. Engum dettur í hug að gera þá kröfu til fólks að það byggi fjós eða fjárhús á landskika sínum vilji það eignast slíkan. Af hverju þá gera þá kröfu að fólk eigi bát ef það vill eignast hlut í kvótakerfinu.

 100 % framsalsréttur

Það að allir eigi að geta keypt sér hlutdeild í kvótakerfinu kallar á fullan rétt til framsals kvótans á hverju ári. Það er mönnum lítil huggun í eignarhlutnum nema þeir geti fullnýtt hann ár hvert, án nokkurra takmarkana þar á. Þannig og eingöngu þannig geta menn innheimt fulla ávöxtun af fjárfestingu sinni í auðlindinni.

 Takamarka á loðnuveiðar verulega

Það þarf engan fiskifræðing til að sjá það að bolfiskstofnarnir verða ekki byggðir upp ef veiða á undan þeim allt ætið jafn harðan. Að veiða um og yfir 1 milljón tonn af loðnu á ári er algjör firra. Þeirri skoðun hefur oftar en ekki verið flaggað, þessum taumlausu veiðum til stuðnings, að loðnan drepist hvort eð er eftir hrygningu og því allt í lagi að veiða hana. Í þessa röksemdarfærslu vantar tvær staðreyndir sem ekki verða umflúnar: Loðnan drepst EFTIR að hún hefur hrygnt, að drepa hana áður er ekki stofninum til framdráttar. Í öðru lagi þá má ekki gleyma því að loðnan fer ekki til spillis þó hún drepist, á hafsbotni eru hundruð þúsundir tonna af dauðri loðnu sem eru öðrum tegundum óþrjótandi forðabúr löngu eftir að hún drepst. Við eigum ekki að veiða meir en 2-300 þúsund tonn af loðnu, mun það leiða af sér að megnið af loðnunni verður nýtt til manneldis.

 Stórefla hafrannsóknir

Við lifum á fiskveiðum, höfum alltaf gert og munum í fyrirsjáanlegri framtíð gera það áfram. Á meðan „góðærið“ stóð sem hæst var lunginn af þjóðinni farin að trú því sem okkar helstu útrásarvíkingar héldu fram, að sjávarútvegur á Íslandi væri nánast orðin óþarfur. Sem betur fer tókst ekki alveg að slátra honum áður en upp úr sauð og upp komst að þjóðarstoltið, útrásarvíkingarnir, reyndust bara vera óforskammaðir bankaræningjar. Það gengur ekki að þjóð sem á svo mikið undir sjávarútvegi skuli endalaust skera niður fjárframlög til Hafrannsóknarstofnunar en henda svo ótrúlegustu fjármunum í allar aðrar áttir sem ef engin morgundagurinn verður.


Fíll í glervörubúð - Sjávarútvegsmálin.

Sjávarútvegsmál á íslandi eru í algjörum ólestri, núverandi sjávarútvegsráðherra er eins og fíll í glervörubúð og umræðan almennt, er í besta falli tómt rugl. Hinir ýmsu þingmenn, með Ólínu Þorvarðardóttir í broddi fylkingar, fara um dreifðar byggðir landsins og reyna þar að snapa hugmyndum sínum um afskriftir á aflaheimildum fylgis.
Þetta er einhver ómerkilegasta leið sem ég hef áður orðið vitni af til að snapa sínum málum fylgis og hef þó marga ausuna sopið í þeim efnum. Boðskapur þessa liðs er alltaf sá sami: Kvótakerfið hefur farið illa með mörg byggðalögin, gjafakvótasægreifarnir sitja á aflaheimildunum og á leigumarkaði deila þeir og drottna. Umræðan um sjávarútvegmál hefur undanfarin áratug verið álíka gáfuleg og annað sem úr þingheimsátt má búast.
Fyrst og fremst hafa menn reynt að spila á allar verstu eiginleika mansins, öfund, illkvittni og meinfýsni. Það er stjórnmálamönnum eðlislægt að bulla, en það er þó algjör óþarfi hjá almenningi að apa það upp eftir þeim.
Sannleikurinn er sá að kvótakerfið hefur ekki farið illa með hinar dreifðu byggðir landsins, heldur hin taumlausa ónáttúra í þorskinum að fara ekki eftir excel-útreikningum Hafrannsóknarstofnunar. Þegar kvótakerfið var fyrst sett á, var heildaúthlutun í þorski um 400 þúsund tonn, en er nú um 160 þúsund tonn. Þessi 60 % niðurskurður á aflaheimildum í þorski er höfuðvandinn og það sem ýtt hefur undir fækkun í skipaflotanum og lokun fiskvinnslustöðva.
Ég gef mér að hver einasti maður sjái það í hendi sér, að undir þessum taumlausa niðurskurði verður ekki rekið frystihús og togari í hverju einasta plássi. Fækkun báta og vinnsluhúsa er í beinu hlutfalli við skerðingar aflaheimilda í þorski. Liðsmenn Frjálslynda flokksins hafa staglast á því að aldrei hefði átt að heimila framsal aflaheimildanna og jafnvel gengið svo langt að skrifa bankahrunið á framsalsheimildina.
Hvernig halda menn að umhorfs væri í höfnum landsins í dag, ef framsalið hefði ekki verið leyft á sínum tíma? Þær væru fullar af hálfsokknum eikarpungum og misjafnlega mikið riðguðum austur-þýskum stálkláfum. Eftir rúmlega tveggja áratuga stanslausan niðurskurð væri engin glóra lengur í því að gera  út stórann hluta flotans og ekkert annað hægt að gera en leyfa þessum kláfum að grotna niður og jafnvel mara hálfir í kafi, hangandi í landfestunum. Að heimila framsalið var nauðvörn stjórnvalda þess tíma, greinin öll var rekin með áður óþekktu tapi og ekki óvanalegt að marga vikur liðu án þess að starfsfólk sjávarútvegfyrirtækja fengju útborgað, man ég t.d. eftir einu tilviki þar sem liðun 12 vikur á milli útborgunardaga, en það skal áréttað að á þeim tíma var greitt út vikulega.
Enn eitt „trompið“ sem niðurrifsöflin hafa ítrekað spilað út er gjafakvótaumræðan. -Sægreifarnir fengu þetta afhent á silfurfati og liggja svo á þessu eins og snákar á gulli. Ég hef lengi starfað í þessum geira og þekki engan sem hefur fengið aflaheimildirnar gefnar. Maður sem skuldar fleiri hundruð miljónir og jafnvel fleiri miljarðar vegna kvótakaupa hefur varla fengið hann gefins er það?
Hingað til hefur enginn vilja svara því hver átti að fá kvótann úthlutaðan á sínum tíma, ef ekki útgerðirnar sem þá voru í rekstri. Þróun sjávarútvegs hér á landi endurspeglar þá staðreynd að aðgangurinn að auðlindinni er takmarkaður. Skipum og fiskvinnsluhúsum hefur jafnt og þétt fækkað, hátt verð aflaheimilda hefur ýtt mönnum út í frekari vöruþróun og vöruumvöndun og er arðurinn til heilla fyrir þjóðarbúið er óumdeildur.
Það eina sem ekki verður talið þjóðinni til heilla í þessum efnum er umræðan. Hún hefur alið af sér alskyns snillinga sem séð hafa sér leik á borði og í krafti ádeilna sinna á kvótakerfið tekist að troða sér inn á Alþingi íslendinga. Þar hefur þetta lið reynt að hanga eins og hundar á roði með ádeiluna á kvótakerfið eitt að vopni.
Í umhverfi því sem sjávarútvegur hér þarf að starfa, gerist hið óumflýjanlega, reksturinn verður vandasamari, straumlínulagaðri og með tíð og tíma er hismið skilið frá. Eftir sitja þeir sem hafa þekkinguna, getuna og viljann til að sækja björg í bú, svo við hinir getum haldið áfram að naga blýanta og sorterandi rauðan pappír frá bláum. Það hefur margoft verið reynt að hirða verðmæti frá þeim sem þau hafa og endurúthluta til þeirra sem aldrei komust alla leið, nú síðast í Simbabwe. Ég þarf varla að hafa mörg orð um þá gáfulegu tilraun Mugabe forseta og hvernig hún endaði.

Engin leið að hætta !

Úr því maður er loksins byrjaður þá er engin leið að hætta. Hvað næst? Nú auðvitað kreppan margumrædda. Það eru ein 2 ár síðan mér varð það fyllilega ljóst að þessi útrás okkar með tilheyrandi ofþenslu hagkerfisins gat ekki endað með öðru en ósköpum. Auðlegð þjóðar getur til lengri tíma aldrei orðið meiri en nettóinnstreymi þess fjarmagns sem hún fær fyrir framleiðslu sína. Að sortera rauðan pappír frá bláum og selja hvort öðru ímynduð verðmæti getur ekki haldið til lengdar, er ég í raun hissa á því hve lengi heiminum öllum tókst að halda boltanum á lofti. Við íslendingar vorum með marga bolta á lofti og alskyns sjónaspil á öldum ljósvakans, enda fór sem fór. Þó ég hafi þóst sjá þetta fyrir þá óraði mig ekki fyrir þessum ósköpum, þjóðin í raun gjaldþrota og engin leið að spá fyrir um hvenær við réttum úr kútnum. Það eina sem ég veit með vissu, er að ég verð löngu gleymdur og grafinn, og dætur mína komnar á seinni helminginn þegar það gerist. Það sorglegasta í þessu öllu er að þjóðin virðist ekki í neinu sambandi við málið og hversu alvarleg staðan er. Það er bara haldið áfram að spreða eins og ekkert hafi í skorist. Fjölmiðlar hafa verið ákaflega duglegir við að útnefna hina og þessa sem hugsanlega sökudólga fyrir því hvernig komið er fyrir okkur. Þetta gera þeir í trausti þessa að beina sjónum almennings frá þeirri staðreynd að þeir sjálfir, fjölmiðlarnir okkar, eru helstu sökudólgarnir. Öll þau ár sem yfir okkur dundu viðvaranir erlendra sérfræðinga, með tilheyrandi útlistunum á því hversu brothætt ástandi í búskap okkar væri orðið, kusu allir fjölmiðlar á Íslandi að gefa fullkomið frat í svona öfundar- og svartnættisraus og þess í stað flytja okkur fréttir af nýjustu „mega-uppkaupum“ útrásarvíkinganna á yfirverðmetnum eignum erlendis, flottu bílunum þeirra, mótorhjólum á milljónatugi og hundruð milljóna afmælisveislum. Ekki hefur ástandið skánað mikið eftir að hrunið varð staðreynd, fréttaflutningurinn og umfjöllunin alveg út úr kú. Svo vitlaust er þetta allt orðið að maður er nánast að gefast upp á því að fylgjast með endaleysunni. Hér eru nokkrar spurningar sem ég hefði kosið að fjölmiðlar leggðu fyrir stjórnmálamenn okkar en er orðin úrkula vonar um að svo verði. Verð ég því að varpa þeim fram sjálfur:


Ágæti stjórnmálamaður, skaut þeirri hugsun aldrei upp í kolli þínum, ekki eitt einasta augnablik, að kannski væri eitthvað til í því sem sagt var í öllum þeim skýrslum/umfjöllunum um íslenska bankakerfi og þar með hagkerfið sem okkur var að berast frá innlendum sem erlendum sérfræðingum.


Ágæti stjórnmálamaður, hvernig í ósköpunum datt þér/ykkur í hug að lækka bindiskyldu bankana í ljósi þessa að hagkerfið var svo útþanið orðið að það brakaði í öllu burðarvirkinu og vöruskiptajöfnuður var orðin neikvæður um tugi miljarða í hverjum einasta mánuði. Hvað í ósköpunum gat sannfært þig/ykkur um að lækkun bindiskyldu væri lausnin á þessari hömlulausu útlánastefnu bankanna.


Ágæti stjórnmálamaður, strax eftir hrun bankana varð ljóst að Landsbankinn hafði, síðasta virka starfsdag sinn, lánað einhverjum manni út í bæ, rúma 10 miljarða til að kaupa hlutabréf í bankanum sjálfum. Sú saga fór strax á kreik að þessir fjarmunir hafi verið notaðir til að kaupa hlutafé af stærstu hluthöfum bankans. Morgunblaðið, sennilega samkvæmt skipun lánadrottna sinna, birti listann yfir 10 stærstu hluthafa bankans fyrir og eftir hrun. Þar var ekki að sjá neina breytingu sem máli skipti. Datt þér aldrei í hug ágæti stjórnmálamaður, að biðja um listann yfir 50-100 stærstu hluthafana, fyrir og eftir hrun? Á þeim lista er sennilega að finna bankastjórnanna, framkvæmda- og sviðstjóranna, útibústjóranna og alla þá hina sem einhverja flotta titla báru hjá bankanum.  To be continued

 


Sagan endalausa. - þorskurinn og Hafró.

Fyrir u.þ.b. 30 árum gaf Hafró út mjög dökka skýrslu af ástandi fiskistofnana við landið og þá sér í lagi þorskins. Skýrsla þessi hefur síðan gengið undir nafninu „Svarta skýrslan“ og fá þeir útgerðarmenn sem komnir eru af léttasta skeiðinu, enn þann dag hroll þegar þeir minnast hennar. Afkvæmi skýrslu þessarar varð kvótakerfið sem menn hafa rifist um allar götur síðan, ágreiningurinn hefur á köflum verið svo mikill, að sumir hafa meira að segja getað logið sig inn á þing með loforðum um að aflífa króann. Nú orðið er öllum ljóst að sókninni varð að stýra, en ástæður þess að menn eru á móti kerfinu hafa smásaman breyst eftir því sem á hefur liðið. Í upphafi voru andstæðingarnir þeir sem enn trúðu því að nóg væri til af fiski í sjónum, að auðlindin væri með öllu óþrjótandi. Þessir ágætu menn eru í sama félagsskap og þeir sem enn halda að sjórinn geti endalaust tekið við úrgangi og óþvera mansins. Svo eru það þeir sem gerst hafa andstæðingar kerfisins þegar afleiðingar framsalsréttarins á minni byggðalög liggja fyrir. Að lokum eru það þeir sem ergja sig á að hafa selt of snemma, allt of snemma, og vilja fá úthlutað aftur svo þeir geti selt eina ferðina enn. Þessir ágætu menn(og konur) eru sem betur fer allir samankomnir í Frjálslinda flokknum. En eitt er það sem aldrei ber á góma, svo einkennilegt sem það má nú vera. Hvernig í ósköpunum stendur á því að allt þetta sprenglærða lið hjá Hafrannsóknarstofnun telur, í fyllstu alvöru, að það sé hægt að byggja upp fiskistofnana á sama tíma og veitt er undan þeim allt ætið? - Er ég þá fyrst og fremst að tala um Loðnuna. Í áratugi hefur það dunið á manni að það sé allt í lagi að veiða hana. - Hún drepist hvort eð er eftir hrygningu, engum til gagns. Þessi moldbúavísindi eru eins arfavitlaust og hugsast getur. Satt er það að stærsti hlutinn drepst eftir hrygningu, en þó við högnumst ekki á því þá gera allar lífverur hafsins það. Við erum að tala um óhemju lífmassa, hundruð þúsundir tonna, sem fara forgörðum með tilheyrandi afkomubresti fiskistofnana. Þorskurinn liggur í þessum lífmassa vikum saman og byggir sig upp fyrir rýrri tíma. Svo Undalegt sem það má vera hangir það býsna vel saman, upphaf veiða okkar á loðnu í einhverjum mæli og hnignun þorskstofnsins. Ég mana Hafró að hysja upp um sig buxurnar og gera það sem þeir vita að er afkastamesta aðferðin til að byggja upp þorskstofninn. - Mæla með verulegum samdrætti á loðnuveiðum um ókomin ár. Það er svo með ólíkindum hvernig þetta mál er vaxið, manni dettur helst í hug að einhverjir aðilar sem eiga mikilla hagsmuna að gæta hafa hreinlega, í gegnum leppa sína á Alþingi, bannað Hafró að hafa skoðun á málinu. Annað þessu nátengt, en frá öðru sjónarhorni, er vægðalaus umgengni okkar um hafið, þ.e. botn og hrygningarstöðvar. Í áraraðir drógu togararnir á eftir sér risa-keðjur yfir botninn á karfaslóðinni fyrir sunnan land og er svo komið nú, að þar sem varla var hægt að dýfa trolli nema fá það aftur í henglum korteri seinna, er í dag hægt að toga tímunum saman án þess að slíta möskva. Svæðið allt er orðið eins og malbikað bílaplan. Snurvoðarbátarnir vaða um hrygningarlóð eins og hungruð úlfahjörð, rótandi upp nýgotnum hrognum og svili með þeim afleiðingum einum að ekki verður úr þessu fiskur sem hægt er að veiða síðar þjóðarbúinu til heilla.  Þetta er svo vitlaust allt orðið að þrátt fyrir árvissa  hnignun í varpi og afkomu Svartfugla, svo alvarlega að um allt rekur á land fugl, í tugþúsunda og jafnvel hundruð þúsunda tali, og það eina sem sérfræðingum dettur í hug er að tala um sjúkdóma eða erfðabreytileika. Þvílíkt bull, fuglinn sveltur í hel. Flóknara er það ekki.


Fólk er fífl

Þann sannast æ betur hið fornkveðna að fólk er fífl. Þá sér í lagi fólk sem vinnur við fréttaöflun, flutning þeirra sem og stjórnmálamenn. Rakst á flennistóra fyrirsögn í DV um daginn þar sem „nýbakaður“ leiðtogi framsóknarmanna æpti á lesendur að „Halldór hafi ekki viljað hann“. Í opnu gerir Guðni svo upp við fortíðina og viðurkennir þar að Halldór hafi ekki viljað sig sem formann framsóknarmanna. Ég er einn af örfáum íslendingum sem þjáist ekki af pólitísku gullfiskaminni og man það vel þegar Guðni birtist á sjónvarpsskjáum landsmanna, nýskriðinn af fundi með Halldór, á heimili þess síðarnefnda, rauðþrútinn í framan og svekingslegur mjög, harðneitandi að fráfarandi formaður hafi bannað honum að verða leiðtogi flokksins. Fjölmiðlar létu þar við sitja, án þess að ganga á neitt lengra og hreinlega snúa sannleikann út úr þeim. Ísland er sennilega eina landið í Evrópu, allavega þess hluta sem á tímum kalda stríðsins var kallað Vestur-Evrópa, þar sem kjörnir fulltrúar lýðsins komast upp með það, ekki bara stundum, heldur alltaf, að svara öllum óþægilegum spurningum með skætingi og útúrsnúningi. Annarstaðar lætur fjölmiðlafólk pólitíkusana ekki komast upp með neitt múður, þar er það bara harkan 6. En sennilegast hafði Sigrún Stefánsdóttir rétt fyrir sér, hér um árið, í þættinum „Á milli mjalta og messu“, þegar hún sagði íslenskt fjölmiðlafólk latt. Nennti ekki að færa okkur aðrar fréttir en þær sem væru -copy/paste- af heimasíðum annarra, nenntu ekki að kynna sér neitt til hlítar né grafa dýpra.  Sauðsvartur almúginn þekkir ekkert annað og lætur sér það nægja að vera fóðrað á þessari endaleysu.  Hvar annarstaðar en á Íslandi hefði það viðgengist, án nokkurra haldbærra skýringa, að 2 æðstu stjórnmálamenn þjóðarinnar í 12 ár. Leiðtogar flokka sinna, ábyrgir fyrir öllu góðu og slæmu sem gert hefur verið á einu mesta umbreytingarskeiði þjóðfélagsins, hyrfu báðir af sjónarsviðinu, fyrirvaralaust á miðju kjörtímabili með þeirri útskýringum einum að hér væri um einkamál þeirra að ræða.  Það hefði hvergi liðist, ekki norðan Alpana allavega. Annarsstaðar hefðu fjölmiðlar gengið svo hart á slíka menn að þeir hefðu allavega ekki komist upp með að láta það verða sínar síðustu embættisfærslur að smyrja sjálfa sig í feit stjórnsýslustörf.


Upphafið

Jæja, þá er komið að því. Hef lengi gengið með þá grillu í höfðinu að fara út í þessa vitleysu, þ.e. að „blogga“. Menn þurfa að vera létt geggjaðir til að ímynda sér að einhver hafi áhuga á að kynnast skoðunum þeirra á mönnum og málefnum líðandi stundar. En þar sem þú ert að lesa þetta þá geturðu gengið út frá því sem vísu að eins er komið fyrir mér og þér, þ.e. við erum báðir/bæði létt geggjaðir/uð.
En nóg um það, hvar á að byrja ? Ekki flókið, nýafstöðnum kosningum að sjálfssögðu. Þær fóru eins og spár höfðu ýjað að, Sjallarnir héldu sínu að vanda, Samfylkingin gat ekki annað en tapað fylgi sem og Framsókn. VG fékk vinstrisinnanna úr þessu tveimur flokkum. Það lá algjörlega ljóst fyrir, strax eftir kosningar, að Sjallarnir ætluðu sér ekki að viðhalda samstarfinu við Framsókn enda á pólitískum mælikvarða orðið elliært og í raun búið að vera í öndunarvél allt síðastliðið kjörtímabil. Framsóknarmenn reyndu af veikum mætti, eftir að fyrstu skoðanakannanir litu dagsins ljós, að sannfæra kjósendur um að flokkurinn hefði einhverjar aðrar skoðanir en Sjallarnir vor búnir að segja þeim að þeir mættu hafa. - Nægir þar að nefna uppákomuna í kringum störf stjórnarskrárnefndar, þvílík „kómedía“. Jón Sigurðsson, karl greyið, hrökklast úr formansstólnum eftir eingöngu 9 mánuði, sem fráfarandi (flótta)-formaður kom honum í, að hætti Norður-Kóreumanna. En eftirmálarnir, ég er hissa á því að Geir Haarde skuli treysta sér í samstarf við Samfylkinguna, þar er hver höndin upp á móti annarri og ekki á neitt að treysta úr þeirri átt. ein skoðun í dag og eftir neikvæð viðbrögð allt önnur á morgun. Ég hafði spáð því að Sjallarnir færu í samstarf við VG. Kann að hljóma sem fáránlegur spádómur en ekki svo vitlaus ef að er gáð. Enginn munur er á Sjöllum og VG í mörgum málum, nægir þar að nefna landbúnað, samgöngur og Evrópumálin. Þeir hefðu ekki verið í neinum vandræðum með virkjanamálið, Steingrímur hefði farið létt með að samþykja álver á Bakka og hnoða málinu svo í nefnd næstu 4 árin til frekari meltingar. Ólíkt Samfylkingunni má treysta á það að VG skiptir aldrei um hest í miðri á, Þeir eru eins og bolabítar, ríghalda í og skipta aldrei um skoðun. En mesti, og besti, brandarinn er náttúrulega sú staðreynd að Steingrímur sannaði það fyrir alþjóð sem margar illkvittnar tungur hafa haldið fram að VG vill alls ekki í stjórn, þeim henti best að vera í andófinu. Ekki ? Um hvað heldur þú að heimting Steingríms á afsökun frá Jóni hafi snúist. Og það í beinni !!

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband